Sálræn áfallameðferð með áherslu á styrkingu sjálfsmyndar
IOPT er ný tegund áfallameðferðar á Íslandi þar sem áherslan er á úrvinnslu persónulegra áskorana, áfalla og erfiðra tilfinninga.
IOPT byggir á visku okkar eigin líkama. Líkaminn okkar geymir allt sem við þurfum á að halda til að vinna úr áföllum og heila líkama og sál.
IOPT aðferðin er nærgætin, hlý og skilvirk leið til að öðlast skilning á áhrifum áfalla, vinna úr íþyngjandi reynslu og öðlast bata.
Áhrif áfalla
Erfið lífsreynsla, s.s. ofbeldi, einelti eða vanræksla getur skilið eftir sig djúp spor í taugakerfinu okkar og verið undirliggjandi orsök bæði andlegrar og líkamlegrar vanlíðunar. Rannsóknir hafa sýnt að áfallalíðan gengur í arf ef ekki er unnið úr henni. Þar af leiðandi geta þínar áskoranir átt upptök sín í áföllum sem foreldrar þínir eða amma og afi þín upplifðu. Áskoranir og vanlíðan sem börnin okkar glíma við geta að sama skapi átt upptök sín í áföllum frá fyrri kynslóðum.
Hvað er IOPT?
IOPT áfallameðferð með ásetningsaðferðinni er skilvirk aðferð sem hentar vel til að vinna úr áföllum eða erfiðri reynslu sem þú hefur gengið í gegnum og til að vinna að persónulegum þroska. IOPT aðferðin gerir þér kleift að vinna úr, höndla og öðlast skilning á því sem þú gekkst í gegnum og hvernig áföllin/erfiðleikarnir hafa hindrað þig í að lifa því lífi sem þú óskar og verðskuldar.
Ásetningsaðferðin
IOPT virkar þannig að þú vinnur gegnum ásetning til að nálgast áfallaminningarnar sem eru geymdar í taugakerfinu. Þinn ásetningur skapar tryggan ramma fyrir þig til að vinna úr áföllum sem þú hefur lent í hvenær sem er í lífinu. Þetta gerist á þann hátt að þú velur þér þinn "ásetning" sem þú vilt vinna með í hverjum tíma fyrir sig. Ásetningssetningin getur verið staðhæfing eða spurning og getur verið hvað sem er, en þó verður orðið "ég" að koma fyrir í ásetningssetningunni sem þú velur að vinna eftir.
Samhljómun
Orðið „samhljómur“ (e. resonance) er notað yfir þægilega hljóman tveggja eða fleiri hljóðfæra í tónlist. Í IOPT vísar þetta hugtak til þess að orðin sem þú velur í ásetningi þínum, samhljóma (eða enduróma) í annarri manneskju, sem við köllum „samhljómanda“ í IOPT. Í einstaklingstíma samhljómar einstaklingurinn sjálfur í gegnum ásetninginn, en í hóptíma fær hann aðra til að samhljóma fyrir sig.
Allir geta „samhljómað“
Við höfum öll meðfæddan hæfileika til að samhljóma með öðrum. Þetta er frumstæð leið sem öll spendýr nota t.d. til að tengjast sínum afkvæmum, og gerist gegnum limbiska kerfi heilans, sem stundum er kallaður tilfinningaheilinn. Þegar við vinnum gegnum ásetning sem við setjum okkur sjálf og bjóðum öðrum að samhljóma þætti/orð úr ásetningssetningunni okkar, opnum við fyrir þessa frumsamskiptaleið og fáum þannig tengsl við það sem liggur ómeðvitað í taugakerfinu okkar. Að samhljóma inn á reynslu annarra krefst engrar forkunnáttu á nokkurn hátt, einungis vilja til að vera opin fyrir því að taka á móti upplýsingum sem birtast, í formi hugsana, tilfinninga og líkamlegra skynjana.
IOPT áfallameðferð - markmið
Markmiðið með meðferðinni er fyrst og fremst úrvinnsla áfalla og erfiðleika sem þú hefur gengið gegnum svo þér líði betur með sjálfa(n) þig, auk þess að losa um spennu og orku sem fer í að halda erfiðum minningum og tilfinningum læstum í undirmeðvitundinni.
Með hjálp ásetningsaðferðarinnar muntu komast að rót þeirra vandamála sem þú glímir við í dag. Aðferðin leiðir í ljós hvort það eru áföll sem eru undirliggjandi orsök vandans, og í framhaldi af því geturðu unnið úr áföllunum á þann hátt að þau stjórni ekki lengur lífi þínu. Þú getur hafið nýja vegferð í lífinu, fengið aukna innsýn og skilning á því hver þú ert og öðlast meiri orku.
Takk fyrir að heimsækja síðuna mína!
Ég heiti María og er er viðurkenndur IOPT áfallaþerapisti, iðjuþjálfi og markþjálfi með áralanga reynslu af meðferðarvinnu, ráðgjöf og fræðslu. Ég hef mikla ástríðu fyrir mínu starfi og legg mig fram um að skapa öruggt og styðjandi andrúmsloft í meðferðartímanum svo þú getir fundið sjálfa(n) þig á ný - á þínum hraða.
Meira um mig